Erla Björk stýrir Afli og Orku
VAO, Verkfræðistofan Afl og orka, hefur ráðið Erlu Björk Þorgeirsdóttur sem framkvæmdarstjóra, en áður starfaði Erla meðal annars fyrir Orkustofnun og verkfræðistofuna Mannvit.
VAO hefur ráðið Erlu Björk sem framkvæmdarstjóra en áður starfaði Erla sem verkefnastjóri Orkustofnunar. Hjá Orkustofnun sinnti Erla margvíslegri stjórnsýslu og ráðgjöf í tengslum við orkumál bæði varðandi flutningskerfi- og dreifiveitur, auk leyfisveitinga og eftirlits vegna raforkuframleiðslu og rannsókna.
Erla hefur setið í nefndum og stjórnum, stýrt ráðstefnu og haldið erindi og fundi um orkumál, bæði hérlendis og erlendis. Hún starfaði áður á verkfræðistofunni Mannvit sem hét áður Rafhönnun, þar sem hún vann meðal annars að kerfisgreiningum fyrir Landsnet og ráðgjöf vegna endurbóta og uppbyggingar í flutningskerfinu.
Erla lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1985, Rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands 1989 og prófi sem Civilingeniør/MSc rafmagnsverkfræðingur frá Danmarks Tekniske Universitet árið 1991.
„Við erum í virkilega ánægð með að fá sterkan stjórnanda í hópinn okkar og teljum að gríðarleg reynsla og þekking Erlu muni verða lyftistöng fyrir bæði Verkfræðistofuna Afl og Orku og Rafal ehf. móðurfélag VAO,“ segir Valdimar Kristjónsson, stjórnarformaður VAO og framkvæmdastjóri Rafal.